Fréttabréf stjórnar 27. mars

Kæru Snarfarafélagar.
Hér gefur að líta næsta fréttabréf stjórnar.


Myndavélar aðgengilegar félagsmönnum

Nú hafa helstu myndavélar verið gerðar aðgengilegar félagsmönnum og var sendur út tölvupóstur þess efnis fyrir fáeinum dögum. Greinilega mikill áhugi á að tengjast enda fjöldi Snarfarafélaga sem sóttist eftir aðgangi.
Umsókn um aðgengi að myndavélum var sent í tölvupósti á alla félagsmenn. Fáir þú ekki tölvupóst stjórnar biðjum við þig að hafa samband við stjórn á netfangið snarfari@snarfari.is.


Höfnin opnar 1. apríl
Það fer ekki framhjá neinum að nú er auðfinnanlega vor í lofti og mikill spenningur að sjósetja og hefja siglingasumarið 2025. Stjórn vekur athygli á að opnun hafnar er formlega 1. apríl en eins og félagsmenn voru sammála um á aðalfundi 2023, þar sem vetrarlokun var samþykkt, þá er ekkert því til fyrirstöðu að sjósetja báta sína fyrir sumarið nokkrum dögum fyrir opnun hafi veturkonungur lokið sínum störfum.
Nú hafa nokkrir bátar verið sjósettir og óskum við þess að veður og sjólag verði með besta móti í sumar.

Skemmtibátanámskeið í fullum gangi
Á mánudaginn hófst fjögurra kvölda skemmtibátanámskeið undir stjórn Aríels Péturssonar, sjóliðsforingja. Alls eru 16 Snarfarafélagar sem sitja námskeiðið sem lýkur með bóklegu og verklegu prófi í vor.

Að öllu óbreyttu eru næstu kvöld skipulögð 31. mars, 2. apríl og 29. apríl frá kl. 19-22. Óskar stjórn eftir því að félagsmenn veiti næði meðan námskeiði stendur en vitaskuld er félagsheimilið aðgengilegt hvað snyrtinguna varðar og til að næla sér í kaffibolla.


Vinna við viðgerðarskemmu gengur vel

Nú er á fullu vinna við að koma þaki á nýju viðgerðarskemmuna og gengur sú vinna hratt og vel og styttist í að skemman verði orðin fokheld. Það verður frábær viðbót við athafnarsvæði og aðstöðu okkar félagsmanna að geta fengið aðstöðu innandyra til að ditta að bátum í hlýju, með góða vinnulýsingu og jafnvel góða tónlist með.

Meira var það ekki í bili.

Kveðja, stjórn.